SLEPPiTÚR 27-31 maí 2015

Ætlunin er að ríða af stað frá Hallanda seinni part miðvikudagsins 27. maí, leggja af stað um klukkan 17:00 og ríða austur í Sauðholt. Síðdegis á fimmtudeginum 28. maí er áætlað að ríða niður með Þjórsá sem leið liggur að Sandhólaferju og áfram niður í Þykkvabæ. Þar í gegn, austur að Hólsá, upp með henni og vonumst við til að komast yfir Rangá og Þverá við Ártún, þar sem hestarnir fá næturhvíld. Við munum leggja af stað fyrir hádegi á föstudeginum 29. maí, ríðum niður með Hólsá, í gegnum hlaðið á Grímsstöðum, Landeyjaveg til austur og að Gunnarshólma þar sem hestarnir fá náttstað. Á laugardeginum 30. maí reynum við að leggja af stað um hádegi. Höldum í austur frá Gunnarhólma síðan upp Hólmabæjarveg og þverum Suðurlandsveg yfir á Dímonarveg. Þar tökum við fínar götur yfir Markarfljótsaura og að gömlu Markarfljótsbrúnni þar sem við förum yfir og fylgjum Þórsmerkurvegi að Seljalandi þar sem hestarnir hvílast við réttina að Heimalandi. Síðasti spölurinn er síðan á sunnudeginum 31. maí, riðið með þjóðveginum og að Selkoti um 20 km spölur.

Þessi leið er víðast hver með góðu undirlagi, oft á tíðum frábæru,  dagleiðir  um og yfir 30 km nema síðasti dagurinn verður heldur styttri.

Við gerum ráð fyrir að fyrstu næturnar muni hver gera eigin ráðstafanir varðandi gistingu. Við munum síðan fara að Hallanda á föstudagskvöldinu þar sem við munum grilla saman og fagna ásamt fleirum með lifandi tónlist, þar mun hljómsveitin Peacemakers spila í hesthúsinu fram eftir nóttu. Ætlunin er síðan að halla höfði að Selkoti á laugardags- og sunnudagskvöldinu þá við ferðalok.

Við höfum lagt inn pöntun fyrir góðu veðri að venju og vonumst til að svo verði að venju. Þannig að það eina sem ferðafélagarnir þurfa að koma með er góða skapið.